Engin er nú á gjörgæslu vegna kórónuveirufaraldursins sem er í mikilli rénun. Andleg vanlíðan hefur hins vegar aukist vegna afleiðinga faraldursins.
Þrír greindust með Covid 19 síðasta sólahring og voru þeir allir í sóttkví. Tveir á Vestfjörðum og einn á höfuðborgarsvæðinu. Ellefu eru spítala og Í fyrsta skipti síðan í mars er engin sjúklingur á gjörgæslu.
Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarna og Landlæknis.
Í síðasta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar var ákveðið að auka framlög til geðheilbrigðismála um 500 milljónir króna. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að fleiri leiti þangað nú en áður vegna andlegrar vanlíðunar
Þegar faraldurinn var í hámarki voru margir sem höfðu samband vegna kvíða við sjúkdóminn Covid-19. Það hefur breyst og nú finnum við að fólk er að hafa meira samband þar sem því líður illa útaf samfélaglegum breytingum og er kvíðið,“ segir Ragnheiður.
Hún segir að fleiri sálfræðingar verði ráðnir á þær 15 heilsugæslur sem eru á höfuðborgarsvæðinu.
„Við munum auka verulega í sálfræðiþjónustuna og munum auglýsa eftir sálfræðingum á næstunni,“ segir Ragnheiður.