Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hafa óskað eftir sameiginlegum fundi nefndanna vegna vanda Icelandair. Afar mikilvægt sé að funda um stöðuna á breiðum grundvelli og að þessar tvær þingnefndir Alþingis taki málið til umfjöllunar.
„Fyrirtækið er kerfislega mikilvægt og mörg þúsund manns eiga afkomu sína undir starfsemi þess. Það skiptir íslenskan almenning og íslenskt samfélag gríðarlega miklu máli að starfsemi og störf Icelandair séu varin,“ segir í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar.
Tryggja þurfi framtíð Icelandair með öflugri aðkomu ríkisins og velja leiðir sem tryggi hagsmuni almennings til lengri og skemmri tíma.

Logi Einarsson formaður flokksins sagði í Víglínunni á Stöð 2 á sunnudag að stjórnvöld ættu að lýsa því yfir að fyrra bragði að þau muni koma að því að verja stöðu Icelandair.
„Ríkið þarf að vera skýrt í öllum sínum yfirlýsingum núna vegna þess að það er auðvitað ekki hægt að fá aukið hlutafé ef að það er ekki vilyrði fyrir styrknum hinu megin frá,“ sagði Logi.
Ríkið þyrfti hins vegar að koma hreint fram með hvaða hætti það kæmi að stuðningi við flugfélagið.
„Ef við erum að tala um brjálæðislegar upphæðir, kannski meginhlutann af því sem verðmætið í þessu fyrirtæki er, verður ríkið að hugsa hvort það ætli að hjálpa þessu fyrirtæki og leyfa svo mönnum að borga sér arð á næstu árum eða ætlar ríkið með einhverjum hætti að eignast það tímabundið og koma inn í það,“ sagði Logi í Víglínunni.