Skýr lína er að ófrískar konur ættu að halda sig heima við eftir 36 viku meðgöngu en ekkert bendir til þess að þær smitist frekar af COVID-19 eða verði veikari en aðrir, að sögn Ölmu Möller, landlæknis.
Yfirljósmóðir á Landspítalanum ráðlagði verðandi mærðum og fjölskyldum þeirra að fara í sjálfskipaða sóttkví í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gærkvöldi. Alma landlæknir var spurð út í þau tilmæli á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirufaraldursins í dag og sagði að skýr lína væri að konum væri ráðlagt að halda sig til hlés eftir 36 viku meðgöngu og að það byggði á erlendum leiðbeiningum.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði að þeim tilmælum væri ætlað að tryggja að konur bæru ekki smit inn á fæðingardeild spítala.
„Við viljum auðvitað vernda konurnar eins og aðrar en líka þá þarf auðvitað meiri mannafla til að sinna fæðandi konu sem er með COVID og svo er gríðarlega mikilvægt að vernda þann fámenna hóp starsfmanna sem sinnir þessari sérhæfðu þjónustu,“ sagði Alma landlæknir.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði að ekki stæði til að endurskoða gestabann á sængurlegudeild. Flestir stoppi stutt á deildinni og til að verja mikilvæga starfsemi sem ekki sé mannmörg væri mikilvægt að þrengja áfram að heimsóknum eins og gert hafi verið til þessa.