Umferðarslys varð á Reykjanesbraut við Álverið Straumsvík nú í morgun, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir voru fluttir á slysadeild, mismikið slasaðir, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Lokað var fyrir umferð um Reykjanesbraut í rúma klukkustund á meðan vinna stóð yfir á vettvangi en vegurinn var opnaður aftur á tíunda tímanum.
Jóhannes Guðnason, bílstjóri sem oft er nefndur konungur þjóðveganna, hefur verið fastur á Reykjanesbrautinni rétt norðan við álverið frá því klukkan hálfa átta.
Hann lýsti því í samtali í Bítinu á Stöð 2 í morgun að nokkur fjöldi sjúkrabíla hefði verið á vettvangi. Í það minnsta fjórir. Hann hefði séð bíla dregna í burtu. Þá væri afar hált á Reykjanesbrautinni.
Hann sagðist vona að ekki væri um alvarlegt slys að ræða þótt hann væri ekki bjartsýnn.
Fréttin hefur verið uppfærð.