Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, flutti í gær vistir til innlyksa bónda á bænum Skjaldfönn í Skjaldfannardal við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Þyrlan sótti vistirnar á Ísafjarðarflugvöll í gærkvöldi, þar sem lögregla hafði komið þeim fyrir í pappakössum.
Þyrlusveitin flaug því næst með vistirnar að bænum en vegna snjóalaga reyndist ekki unnt að lenda þyrlunni. Sigmanni var því slakað niður og vistunum komið fyrir í björgunarkörfu sem var látin síga úr þyrlunni. Sigmaðurinn bar matinn inn að bænum og ábúandinn var afar þakklátur fyrir aðstoðina, að því er segir í tilkynningu Gæslunnar.
Því næst flaug TF-GRO um þekkt snjóflóðasvæði fyrir snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands og kannaði snjóalög og myndaði svæðið með hitamyndavél.
Flogið var um hlíðar ofan við bústaði í Skálavík auk þess sem svæðið ofan við Flateyri var myndað.
„Eftir myndatökur var haldið aftur til Reykjavíkur en þar lenti þyrlan skömmu fyrir klukkan 22 eftir vel heppnaða ferð,“ segir í tilkynningu.
Hér að neðan má sjá myndbönd frá verkefnum þyrlunnar í gær.