Erlent

Dæmd í tæplega sex ára fangelsi í Sádi-Arabíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Loujain al-Hathloul við ólöglegan akstur í Sádi-Arabíu áður en hún var handtekin.
Loujain al-Hathloul við ólöglegan akstur í Sádi-Arabíu áður en hún var handtekin. Vísir/AP

Aðgerðarsinni sem barðist fyrir rétti kvenna til að keyra í Sádi-Arabíu hefur verið dæmd í tæplega sex ára fangelsi. Loujain al-Hathloul var handtekin árið 2018 og hefur setið í fangelsi síðan. Var hún meðal annars sökuð um að starfa með aðilum sem eiga að vera óvinveittir konungsríkinu.

Hathloul var dæmd af sérstökum hryðjuverkadómstóli fyrir að skaða þjóðaröryggi og ganga erindar erlendra aðila, auk annarra brota. Hún var dæmd til fimm ára og átta mánaða fangelsisvistar en tvö ár og tíu mánuðir þar af voru felldir niður.

Hún mun því sleppa úr fangelsi eftir um þrjá mánuði. Hathloul má þó ekki ferðast frá Sádi-Arabíu í fimm ár og má heldur ekki endurtaka þau brot sem hún var sakfelld fyrir.

Hún var handtekin nokkrum vikum áður en konur í Sádi-Arabíu fengu rétt til að keyra. Yfirvöld konungsríkisins segja handtöku hennar ekki koma því málefni við. Þess í stað hafi hún verið handtekin fyrir að grafa undan konungsfjölskyldu landsins.

Samkvæmt frétt Guardian var tekið sérstaklega fram í upprunalegu ákærunni gegn henni að hún hefði hitt erindreka frá Bretlandi og öðrum Evrópuþjóðum. Hún var einnig sökuð um að tala við erlenda blaðamenn og mannréttindasamtök, auk þess sem hún sótti um starf hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hathloul sjálf og fjölskylda hennar hafa ávalt neitað ásökunum gagnvart henni. Mannréttindasamtök hafa ítrekað kallað eftir því að Hathloul verði sleppt.

BBC hefur eftir fjölskyldu Hathloul að hún hafi verið pyntuð og áreitt kynferðislega í haldi. Yfirvöld hafa hafnað þeim ásökunum og hafa allir sem komu að fangelsun hennar þegar verið hreinsaðir af sök fyrir dómi.

Lina, systir Hathloul, sagði í tísti í dag að dómnum yrði áfrýjað og farið yrði fram á aðra rannsókn varðandi ásakanir fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×