Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um sex leytið í kvöld vegna elds í ruslatunnu við Einivelli í Hafnarfirði. Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi sem fréttastofu barst af atvikinu logaði töluverður eldur í tunnunni sem var farin að fjúka til. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var kveikt í tunnunni með vítissprengju eða skoteld.
Að ruslatunnunni frátalinni reyndust skemmdir að öðru leyti óverulegar og engum varð meint af. Greiðlega virðist hafa gengið að slökkva eldinn.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu eru útköll af þessum toga því miður allt of algeng. Yfirleitt sé um íkveikju að ræða.