Haukur Helgi Pálsson byrjar veisluna, svo tekur við leikur með Tryggva Snæ Hlinasyni og loks er leikur með Martin Hermannssyni um kvöldið.
Þetta eru einmitt síðustu þrír leikir leikir Íslendingaliðanna á árinu 2020 en þessir þrír urðu einmitt í þremur efstu sætunum í kjöri Körfuknattleikssambands Íslands á Körfuboltamanni ársins.
Fyrsti leikur dagsins er leikur Iberostar Tenerife og MoraBanc Andorra sem hefst klukkan 14.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Haukur Helgi Pálsson og félagar í MoraBanc Andorra eru þar í heimsókn á Kanaríeyjum.
Verkefnið verður ekki mikið erfiðara fyrir Hauk Helga og félaga enda er Iberostar Tenerife í öðru sæti deildarinnar með tólf sigra í fjórtán leikjum. MoraBanc Andorra er sjö sætum neðar með sjö sigra í þrettán leikjum.
Haukur Helgi Pálsson er með 8,6 stig, 2,2 fráköst og 1,5 stoðsendingu að meðaltali á 17,5 mínútum í spænsku deildinni í vetur en hann hefur sett niður 43 prósent þriggja stiga skota sinna og skorað 1,4 þrista að meðaltali í leik.
Annar leikur dagsins er leikur Casademont Zaragoza og TD Systems Baskonia sem hefst klukkan 17.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Casademont Zaragoza fá þarna liðið í fjórða sæti í heimsókn en þeir sjálfir eru tólf sætum neðar í töflunni.
Tryggvi Snær Hlinason er með 8,9 stig, 5,7 fráköst og 1,1 varið skot að meðaltali á 19,2 mínútum í leik í spænsku deildini í vetur en hann hefur nýtt 78 prósent skota sinna og troðið boltanum 29 sinnum í körfuna í fimmtán leikjum.
Lokaleikur dagsins er leikur Valencia Basket Club og Acunsa GBC sem hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Martin Hermannsson og félagar í Valencia fá þarna neðsta lið deildarinnar í heimsókn. Valencia er í áttunda sæti með átta sigra í fjórtán leikjum.
Martin Hermannsson er með 6,7 stig, 1,4 fráköst og 2,1 stoðsendingu að meðaltali á 15,2 mínútum í leik en hann hefur nýtt 43 prósent þriggja stiga skota sinna og 88 prósent vítanna.

Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.