„Eigendur og rekstraraðilar Ásmundarsalar vilja taka fram vegna frétta að salurinn er listasafn og verslun með leyfi til að hafa opið til klukkan 23 á Þorláksmessu. Einnig er salurinn með veitingaleyfi,“ segir í tilkynningunni. Þá er þar tekið fram að ekki hafi verið um einkasamkvæmi að ræða, heldur sölusýninguna „Gleðileg jól“ sem opin var öllum.
Þó vekur athygli að samkvæmt Instagramfærslu Ásmundarsalar var auglýstur opnunartími sýningarinnar til klukkan 22 í gærkvöldi.
„Þegar klukkan var farin að ganga 22:30 dreif að fólk sem var að koma úr miðbænum og við gerðum mistök með að hafa ekki stjórn á fjöldanum sem kom inn. Á skömmum tíma fór gestafjöldinn úr 10 í 40.“
Flestir gestanna hafi verið kunnugir eigendum, fastakúnnar, listunnendur og vinir sem undanfarin ár hafi lagt leið sína í salinn á Þorláksmessu.
„Við misstum yfirsýn og biðjumst afsökunar á því,“ segir að lokum í tilkynningunni.