Á annað hundrað listamenn eru með verk sín til sölu á þremur sýningum í miðbæ Reykjavíkur nú fyrir jólin.
Í dag var opnuð sýningin Bæ, bæ 2020 í Núllinu í Bankastræti þar sem 25 listamenn selja verk sín. Ennfremur verður hægt að sjá verkin á Instagram-síðu sýningarinnar.
„Þetta er okkar leið til að kveðja árið með stæl. Þessi lægð í viðburðahaldi undanfarið hafði þau áhrif að mjög margir vildu vera með. Margir hafa líka setið á hugmyndum sem þeir hafa haft tækifæri til að vinna úr á þessu ári Svo hef ég tekið eftir að listmörkuðum yfir jólin hefur fjölgað,“ segir Alexander Jean Edvard Le Sage De Fontenay skipuleggjandi sýningarinnar.

Ríflega hundrað félagar í Sambandi íslenskra myndlistarmanna eru með verk sín til sölu á sýningunni Kanill í gamla Kirkjuhúsinu.
„Þetta er algjört met, algjört met, þó að það hafi verið jólasýningar þá hafa aldrei verið eins margar og núna eru allir að gera eitthvað skemmtilegt. Það eru allir komnir í spreng með að selja verk. Það er ekki nóg að vera bara á vinnustofunni og gera verkin. Þetta er búið að vera erfitt ár,“ segir Anna Eyjólfsdóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna og myndhöggvari.
Hún segir enn fremur að það hafi komið á óvart hversu vel verkin seljast. Verðin séu mismunandi. En það er hægt að gera afborgunarsamninga á vefsíðunni artotek.is.

Á þriðja tug listamanna eru svo með verk til sölu á sýningunni Flæði á Vesturgötu 17.
„Við viljum styðja við fólk sé að kaupa list í jólagjöf og styðja við ungt listafólk sem hefur kannski misst tekjur í ár,“ segir Dorothea Olesen Halldórsdóttir annar stjórnandi Flæðis á Vesturgötu.

Hægt er að nálgast verkin á sýningunni Flæði á vefsíðunni Flaedi.com.