Topplið fimm bestu deilda Evrópufótboltans eiga það öll sameiginlegt að hafa verið í pottinum þegar það var dregið í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í hádeginu í dag.
Ekkert liðanna sextán sem eru enn með í Meistaradeildinni er í efsta sæti í sínu landi. Porto er eina liðið í Meistaradeildinni sem er ekki í einu af fimm stærstu deildunum (England, Spánn, Ítalía, Þýskaland, Frakkland) en liðið er bara í þriðja sæti í portúgölsku deildinni.
Aðra sögu er að segja af liðum í Evrópudeildinni því þau hafa náð að sameina leiki á fimmtudögum með góðri frammistöðu heima fyrir.
Líder de La Liga: Real Sociedad
— MisterChip (Alexis) (@2010MisterChip) December 14, 2020
Líder de la Premier League: Tottenham
Líder de la Bundesliga: Leverkusen
Líder de la Serie A: Milan
Líder de la Ligue 1: Lille
Los líderes de las cinco grandes ligas estarán mañana en el sorteo... de la Europa League
Tottenham á Englandi, Real Sociedad á Spáni, Bayer Leverkusen í Þýskalandi, AC Milan á Ítalíu og Lille í Frakklandi eru á toppnum í sínum löndum og um leið eru þau í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Tottenham er með jafnmörg stig og Meistaradeildarlið Liverpool en situr í toppsætinu á betri markatölu. Næsta enska liðið sem er enn í Meistaradeildinni er lið Chelsea í fimmta sætinu. Liðið í þriðja sæti, Leicester City, er í Evrópudeildinni eins og Tottenham. Manchester City er enn með í Meistaradeildinni en liðið er bara í níunda sæti í ensku deildinni.
Real Sociedad er líka ofar en liðið í öðru sæti á markatölu. Meistaradeildarlið Atletico Madrid er í öðru sæti á Spáni og Real Madrid er síðan þremur stigum á eftir í þriðja sætinu. Sevilla og Barcelona eru bæði enn með í Meistaradeildinni en á meðan Sevilla er í fimmta sæti þá er Barcelona bara í áttunda sæti.
AC Milan er með þriggja stiga forskot á nágranna sína í Internazionale en Inter datt út í Meistaradeildinni og náði ekki einu sinni inn í Evrópudeildina. Liðið í þriðja sæti, Napoli, er í Evrópudeildinni en fyrsta Meistaradeildarliðið er Juventus sem eins og er í fjórða sætinu. Hin Meistaradeildarliðin eru í 8. (Atalanta) og 9. sæti (Lazio).
Bayer Leverkusen komst upp fyrir Evrópumeistara Bayern München og í toppsætið í Þýskalandi um helgina. Meistaradeildarlið RB Leipzig og Borussia Dortmund eru í 3. og 5. sæti en Borussia Mönchengladbach er bara í áttunda sætinu.
Lille er ofar en Lyon á markatölu á toppi frönsku deildarinnar en Meistaradeildarlið Paris Saint Germain er síðan stigi á eftir í þriðja sætinu. PSG er eina franska liðið sem er enn með í Meistaradeildinni og Lille er eina franska liðið sem er eftir í Evrópudeildinni.

Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.