Það má með sanni segja að Gylfa Þór líði vel gegn Chelsea en þetta var sjötta mark hans gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Alls hefur Gylfi Þór skorað 62 mörk í efstu deild enska fótboltans eða jafn mörg og David Beckham gerði á sínum tíma.
Mörkin sex gegn Chelsea dreifast á þau þrjú félög sem íslenski miðjumaðurinn hefur leikið fyrir í úrvalsdeildinni. Tvö komu með Swansea City, tvö með Tottenham Hotspur og nú tvö með Everton.
Fimm af þessum sex mörkum hafa tryggt liði Gylfa stig, í eintölu eða fleirtölu. Hann skoraði í tveimur leikjum Tottenham og Chelsea árið 2013 en báðum lauk með jafntefli. Árið 2016 skoraði hann sigurmark Swansea City og sama ár skoraði hann í jafnteflisleik liðanna. Svo var það leikurinn í gær þar sem hann tryggði Everton sigurinn.
Ekki nóg með það heldur skapaði hann sex af sjö færum Everton í leiknum. Enginn leikmaður Everton hefur skapað jafn mörg færi í einum og sama leiknum í tvö ár. Þá bar Gylfi Þór fyrirliðaband Everton í leiknum.
Everton created seven chances against Chelsea, six were created by Gylfi Sigurdsson.
— Squawka Football (@Squawka) December 12, 2020
The most by an Everton player in a single PL game in over two years. pic.twitter.com/BxDKKrWzv8
Gylfi Þór fær 7.9 í einkunn á vefsíðu WhoScored, hæst allra á vellinum. Breska ríkisútvarpið, BBC, gefur Gylfa 7.48 í einkunn en Michael Keane, Ben Godrey og Dominic Calvert-Lewin fá allir hærri einkunn þar.
Að lokum fær Gylfi 8 hjá staðarblaðinu Liverpool Echo líkt og allir aðrir leikmenn liðsins fyrir utan Godfrey sem fékk 9.