Viðar Örn var eini Íslendingurinn sem tók þátt í leiknum en hann byrjaði að venju upp á topp hjá Vålerenga í kvöld. Matthías sat allan tímann á varamannabekknum, líkt og Hólmar Örn Eyjólfsson hjá Rosenborg.
Eina mark leiksins skoraði Aron Dønnum á 76. mínútu og þar við sat. Dino Islamović hafði nælt sér í sitt annað gula spjald undir lok fyrri hálfleiks og því voru gestirnir frá Rosenborg manni færri allan síðari hálfleikinn.
Bæði lið eru í harðri baráttu um Evrópusæti og eru Vålerenga í frábærri stöðu eftir sigur kvöldsins. Liðið er nú í 3. sæti með 51 stig eftir 28 leiki. Rosenborg er í 4. sæti með 45 stig en á leik til góða. Sama má segja um Kristiansund sem eru í 5. sæti með 44 stig.
Bodø/Glimt hefur nú þegar tryggt sér sigur í deildinni og þar með þátttöku í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári.
Molde er öruggt með sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar en þar á eftir eru Vålerenga, Rosenborg, Kristiansund, Viking og jafnvel Odds BK öll í baráttunni um síðustu tvö sætin sem gefa þátttökurétt í undankeppni Evrópudeidarinnar.