Skoðun

Takk Ás­mundur Einar!

Sæunn Kjartansdóttir skrifar

Starf mitt með ungbörnum og foreldrum undanfarin ár hefur leitt mig á fundi með nokkrum ráðherrum félags- og heilbrigðismála. Tilgangurinn hefur verið að fá liðsinni við málefni ungbarnafjölskyldna í vanda. Það hefur ekki verið hlaupið að því að fá samtal við jafn upptekið fólk en sumir hafa sýnt málefninu áhuga og lagt því mikilvægt lið, til dæmis Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem tók á síðasta ári ákvörðun um að færa starfsemi Miðstöðvar foreldra og barna til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Margir hafa talið mig skorta skilning á ríkisfjármálum og að allt tal um framtíðarávinning þess að fjárfesta í velferð barna væri falleg hugmynd en óraunhæf.

Svo tók Ásmundur Einar Daðason við embætti félags- og barnamálaráðherra. Mér hafði ekki gefist ráðrúm til að panta hjá honum tíma þegar ég var boðuð á fund í félagsmálaráðuneytinu. Þar sagði ráðherra frá sýn sinni á kerfið og hverju þyrfti að breyta. Ég var satt að segja slegin út af laginu vegna þess að mér leið eins og ég hefði skrifað minnisblaðið hans. Og nú er þetta ekki lengur minnisblað heldur fullbúið frumvarp sem byggir á þeirri forsendu að okkur beri ekki einungis siðferðileg skylda til að sjá til þess að kerfið standi betur vörð um velferð barna heldur sé það fjárhagslega arðbært.

Ég vil þakka Ásmundi Einari og samstarfsfólki hans fyrir barnvænu byltinguna sem þau nú boða. Úrlausnarefnin verða sjálfsagt ekki einföld í framkvæmd en leiðin er mörkuð. Ég hlakka til að vinna undir formerkjum farsældar barna en verð þó að hnykkja á að ég er enn þeirrar skoðunar að fæðingarorlofsfrumvarpið þarfnist meiri ígrundunar.

Höfundur er sálgreinir.




Skoðun

Sjá meira


×