Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varar við versnandi veðri í færslu á Facebook í kvöld þar sem bent er á að færð geti farið að þyngjast í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu, á sunnanverðu Snæfellsnesi, norðanverðum Breiðafirði og á sunnanverðum Vestfjörðum.
„Strax á morgun fer í stífa norðanátt með hríð á norðanverðu landinu og getur kafsnjóað og fer í hvassviðri eða storm fram á föstudag. Þá gætu fjallvegir lokast og erfitt gæti verið að halda þeim opnum á köflum. Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar,“ segir í færslunni.
Þá er fullt tungl í dag og má því búast við stórstreymi næstudaga. „Þess gæti gætt á sunnan- og vestanverðu landinu nú í kvöld en fyrir Norðurlandi í norðanátt fram á föstudag. Vegna vind- og ölduáhlaðanda má því gera ráð fyrir að sjávarhæð verði hærri en sjávarfallaspár gefa til kynna, fyrst sunnan- og vestanlands en svo um norðanvert landið um og eftir miðja vikuna.“