Ísak Bergmann Jóhannesson segir að það hafi aldrei komið til greina að spila fyrir England frekar en Ísland.
Ísak fæddist í Sutton Coldfield á Englandi 23. mars 2003 þegar faðir hans, Jóhannes Karl, lék með Aston Villa. Hann átti því möguleika á að spila fyrir enska landsliðið. Eftir fyrsta A-landsleikinn fyrir Íslands hönd í gær sagði Skagamaðurinn að það hefði aldrei komið til greina að spila fyrir England.
„Ég var allan daginn að fara spila fyrir Ísland. Það hefur verið markmið í langan tíma og ég ætlaði alltaf að spila fyrir Ísland. Það kom einfaldlega aldrei til greina að spila fyrir England,“ sagði Ísak við Henry Birgi Gunnarsson eftir leik Englands og Íslands á Wembley í gær. Englendingar unnu leikinn, 4-0.
Ísak varð í gær sjötti yngsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi, aðeins sautján ára, sjö mánaða og 26 daga. Metið á annar Skagamaður, Sigurður Jónsson, sem var aðeins sextán ára, átta mánaða og níu daga þegar hann lék sinn fyrsta landsleik 1983.
Ísak er aftur á móti næstyngsti leikmaður í sögu Þjóðadeildarinnar og sá yngsti í sögu A-deildar keppninnar.
Ísak hefur haft í nægu að snúast undanfarna daga en hann lék tvo leiki með U-21 árs landsliðinu áður en hann var kallaður inn í A-landsliðið. Strákarnir í U-21 árs landsliðinu eru svo gott sem komnir á EM í Ungverjalandi og Slóveníu á næsta ári.
Ísak hefur slegið í gegn með Norrköping á tímabilinu og verið orðaður við mörg af stærstu félögum Evrópu. Norrköping á þrjá leiki eftir í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Sá næsti er gegn Falkenberg um helgina.