Erik Hamrén kvaðst fyrst og fremst vonsvikinn og reiður en ekki sorgmæddur, eftir síðasta leik sinn sem landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta.
Íslenska liðið olli Hamrén vonbrigðum í lokaleiknum í gærkvöld, í 4-0 tapi gegn Englandi á Wembley. Hamrén kvaðst á blaðamannafundi eftir leik hafa verið sérstaklega vonsvikinn með fyrri hálfleikinn þar sem hann hefði ekki séð hugarfarið sem hann vildi sjá.
„Núna er ég meira reiður og vonsvikinn en sorgmæddur. En þetta hafa verið erfiðir dagar, bæði tapið erfiða gegn Ungverjalandi sem tók mikið á mig og leikmenn og starfsliðið, við áttum svo reyndar góðan leik gegn Dönum en ekki í kvöld, og svo að missa föður minn,“ sagði Hamrén en Per Hamrén faðir hans lést á sunnudagskvöld.
Tilfinningaríkt kvöld
„Þetta hafa verið tilfinningaríkir dagar og þetta verður tilfinningaríkt kvöld þegar ég kveð samstarfsmenn mína og leikmennina, því ég kann virkilega vel við þá og hef svo sannarlega notið þess að starfa með þeim. En í augnablikinu er ég meira reiður en sorgmæddur,“ sagði Hamrén.
Aðspurður hvað stæði upp úr á ferli sínum sem þjálfari Íslands svaraði Svíinn:
„Hápunkturinn var að vinna Rúmeníu í undanúrslitunum. Við spiluðum þar mjög vel í mjög mikilvægum leik. Ég nefni leikinn við Tyrki á heimavelli líka. Þá vorum við með stuðningsmennina, fullan völl og þetta var frábært kvöld í Reykjavík. Við þurftum sigur til að geta komist upp úr riðlinum, Tyrkir höfðu unnið Frakka þremur dögum áður, og ég gleymi aldrei fögnuðinum með stuðningsmönnunum þetta kvöld.“
Hamrén sagðist líta framtíðina björtum augum fyrir Íslands hönd og benti á hve gott það væri að U21-landsliðið hefði tryggt sér sæti í lokakeppni EM. Hvað sjálfan sig varðaði þá væri hann nú á heimleið og myndi hjálpa til við að skipuleggja útför föður síns. Annað væri óráðið en hann hefði enn þá áhuga á þjálfun.