Markvörður norska kvennalandsliðsins í handbolta er með kórónuveiruna og Þórir Hergeirsson þurfti að kalla á nýjan leikmann.
Silje Solberg, aðalmarkvörður norska landsliðsins, fékk kórónuveiruna í Ungverjalandi þar sem hún spilar með liði Györ. Dagbladet segir frá.
Fjórir leikmenn Györ liðsins reyndust vera með veiruna en hinir eru þær Anita Görbicz, Szidónia Puhalák og Brigitta Cseko.
Samkvæmt fréttum frá ungverska félaginu þá líður öllum leikmönnunum vel og eru jafnframt komnir í einangrun heima hjá sér.
https://t.co/c3SfvxscrY
— Olav Helgesen (@OlavusO) November 16, 2020
Norges landslagskeeper har testet positivt, men resten av landslaget får reise til Danmark. Landslaget i fotball fikk IKKE reise til Romania, da Omar Elabellaoui testet positivt! Hva skjer????
Þórir Hergeirsson var fljótur að bregðast við þessu og kallaði á nýjan markvörð. Hin 27 ára gamla Marie Davidsen, sem spilar með Thüringer HC í Þýskalandi, kemur inn. Silje Solberg er áfram í hópnum.
Silje Solberg er aðalmarkvörður norska liðsins eftir að hin margreynda Katrine Lunde gaf frá sér sætið. Katrine Lunde er ófrísk.
Silje Solberg er ekki fyrsta norska landsliðskonan hjá Györ sem fær kórónuveiruna því Veronica Kristiansen fékk hana í lok október.
Evrópumótið hefst 3. desember næstkomandi en það fer nú bara fram í Danmörku eftir að Norðmenn gáfu það frá sér að halda það með Dönum vegna heimsfaraldursins.