Valskonur hafa getað æft fótbolta saman síðustu tvo daga, einar íslenskra íþróttaliða, og geta því undirbúið sig fyrir leikinn við Skotlandsmeistara Glasgow City í Meistaradeild Evrópu.
Liðin mætast í 2. umferð á Hlíðarenda næsta miðvikudag. Valskonur slógu finnsku meistarana í HJK Helsinki út fyrir viku, þrátt fyrir að hafa lítið mátt undirbúa sig vegna sóttvarnalaga á Íslandi. Þær náðu aðeins tveimur æfingum saman fyrir leikinn en unnu öruggan 3-0 sigur.
Gætu spilað í desember
Framundan er mun erfiðari leikur við Glasgow City. Með sigri í honum kæmust Valskonur í 32 liða úrslit og gætu mætt einhverju af allra bestu liðum Evrópu, í leikjum sem áætlað er að fari fram 8.-9. og 15.-16. desember. Þar verður leikið á heima- og útivelli, en í 2. umferð eru aðeins stakir leikir og voru Valskonur því heppnar að fá heimaleik.
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, segir við Morgunblaðið að undanþága hafi fengist frá heilbrigðisyfirvöldum til æfinga frá og með síðastliðnum mánudegi. „Við þurfum ekki að æfa á neitt sérstaklega óhefðbundinn hátt þannig séð. Við förum eftir öllum sóttvarnareglum eins og alltaf, erum hitamæld fyrir æfingar og klefarnir eru tvískiptir. Við megum æfa spil og með bolta sem er virkilega jákvætt,“ segir Pétur.
Æfðu varla saman fyrir síðasta leik
Fyrir leik Vals við HJK Helsinki hafði liðið ekki spilað fótboltaleik í heilan mánuð. Leikjum á Íslandsmótinu var frestað vegna faraldursins og mótið að lokum blásið af, en Valur endaði í 2. sæti og tryggði sér sæti í Evrópukeppni á næsta ári.
Æfingabann var á Íslandi í fjórar vikur fyrir leikinn en sjö landsliðskonur Vals náðu þó að æfa, og flestar spila, með íslenska landsliðinu í Svíþjóð viku fyrir Meistaradeildarleikinn. Þær fóru svo í sóttkví við komuna aftur til Íslands. Því náði Valsliðið rétt að koma saman fyrir leikinn við finnsku meistarana.