Sport

Anton heiðraði pabba sinn með sigursundinu

Sindri Sverrisson skrifar
Anton Sveinn McKee keppir í atvinnumannadeildinni í sundi í Búdapest þessa dagana.
Anton Sveinn McKee keppir í atvinnumannadeildinni í sundi í Búdapest þessa dagana. sundsamband.is

„Vonandi gladdi þetta hann. Það var planið,“ sagði Anton Sveinn McKee glaðbeittur eftir sigursund í Búdapest í gær sem var um leið afmælisgjöf til pabba hans.

Anton Sveinn hefur síðustu vikur verið í Búdapest og keppt í Meistaradeildinni í sundi með liði sínu Toronto Titans. Hann hefur verið sigursæll í 200 metra bringusundinu og vann greinina í þriðja sinn í gær, á 2:03,41 mínútum, og tryggði með því sínu liði níu stig. Fyrir hálfum mánuði setti hann nýtt Íslands- og Norðurlandamet í greininni.

Anton sendi pabba sínum, Róberti Ólafi Grétari McKee, góða kveðju þegar hann var gripinn í viðtal eftir sigurinn í gær:

„Pabbi á afmæli í dag og ég vildi standa mig vel fyrir hann. Vonandi gladdi þetta hann. Það var planið,“ sagði Anton, í lauslegri þýðingu blaðamanns, og bætti svo við á íslensku: „Til hamingju með daginn pabbi, ég elska þig.“

Anton heldur áfram keppni í dag þegar hann keppir í 100 metra bringusundi en um er að ræða síðasta mótið áður en átta liða úrslitin hefjast í Meistaradeildinni, um næstu helgi. Þar hafa Anton og félagar í Titans þegar tryggt sér sæti.


Tengdar fréttir

Anton synti til sigurs í Búdapest

Ólympíufarinn Anton Sveinn McKee tryggði liði Toronto Titans 12 stig í dag þegar hann vann meðal annars 200 metra bringusund á móti í Meistaradeildinni í sundi í Búdapest.

„Þetta er það sem mig dreymdi um“

„Þetta segir mér að það að hafa sagt „bæ“ við vinnuna og farið alla leið í sundinu gæti ekki hafa verið betri ákvörðun,“ segir ólympíufarinn Anton Sveinn McKee eftir frábæran árangur í Búdapest um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×