Enn ríkir óvissa um það hvort enska landsliðið geti tekið á móti því íslenska í Þjóðadeildinni í fótbolta í næstu viku, vegna nýrra sóttvarnareglna í Bretlandi.
Samkvæmt nýju reglunum þarf fólk sem ferðast frá Danmörku að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Bretlands. Ísland á að mæta Danmörku í Kaupmannahöfn á sunnudaginn, og svo Englandi 18. nóvember.
„Við erum að bíða eftir upplýsingum frá UEFA. Við höfum ekki fengið að vita annað en það að málið sé í höndum ríkisstjórnar Bretlands,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Ef ekki verði hægt að spila í Englandi sé sá möguleiki til staðar að færa leikinn til annars lands. UEFA býður upp á fjögur lönd til að spila í á „hlutlausum velli“, en það eru Grikkland, Kýpur, Pólland og Ungverjaland, þar sem Ísland spilar einmitt á fimmtudagskvöld.
Enska götublaðið The Sun segir að fari svo að leikurinn verði færður út fyrir England sé Grikkland líklegasti kosturinn þar sem að ekki sé krafa um sóttkví fyrir þá sem komi frá Grikklandi til Englands.
Blaðið segir jafnframt að upp á því hafi verið stungið við UEFA að leikur Danmerkur og Íslands verði færður til Grikklands, svo íslenska landsliðið eigi ekki í vandræðum með að komast til Englands. Það gæti hugnast Dönum sem þá gætu fengið til sín leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni.
Ef ekki tekst að spila leik Englands og Íslands, vegna sóttvarnareglna Englendinga, verður Íslandi úrskurðaður 3-0 sigur.
Ensku félögin banna fjórum Íslendingum að fara til Danmerkur
Ensku félagsliðin Everton, Burnley, Arsenal og Millwall hafa öll haft samband við KSÍ og lýst áhyggjum sínum af því að íslenskir landsliðsmenn þeirra fari til Danmerkur. Að óbreyttu fá þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Jón Daði Böðvarsson því ekki að fara með til Danmerkur, eftir úrslitaleikinn við Ungverjaland um sæti á EM.
Félögin hafa rétt á að banna landsliðsmönnum að fara í verkefni sem hafa í för með sér að minnsta kosti fimm daga sóttkví, samkvæmt farsóttarreglum sem FIFA setti í haust. Þannig hafa orðið miklar breytingar á landsliðum Danmerkur og Svíþjóðar vegna reglnanna í Englandi, en þjóðirnar mætast í vináttulandsleik á fimmtudaginn.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.