Joe Biden, sem lýstur var sigurvegari í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í dag, mun halda sigurræðu sína í Wilmington í Delaware. Viðburðurinn hefst klukkan eitt að íslenskum tíma og horfa má á hann í beinni útsendingu hér að neðan.
Það er mismunandi eftir fjölmiðlum hversu marga kjörmenn þeir telja að Biden hafi tryggt sér en allir eru þeir þó sammála um að hann hafi komist yfir 270 kjörmanna takmarkið sem ná þarf til þess að ná kjöri í forsetakosningunum.
Þetta kom í ljós síðdegis þegar helstu fjölmiðlar treystu sér til þess að gefa út að Biden myndi hafa betur í Pennsylvaníu og þar með tryggja sér þá 20 kjörmenn sem þar eru í boði. Engin leið er fyrir Donald Trump, sitjandi forseta, að ná Biden.
Því er komið að því að hinn verðandi forseti haldi sigurræðu líkt og hefð er fyrir að sá sem sigri í kosningunum geri. Horfa má á útsendinguna hér að neðan.
Kamala Harris, varaforsetaefni Bidens, mun vera með Biden á sviði, ásamt eiginmanni hennar, Doug Emhoff og eiginkonu Bidens, Jill Biden.