Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, opnaði í dag kjarnorkuver við mikla viðhöfn. Nágrannalöndin hafa lýst yfir áhyggjum yfir öryggismálum í verinu.
Kjarnorkuverið var reist af Rosatom, rússnesku fyrirtæki í eigu ríkisins, og var verkefnið fjármagnað af yfirvöldum í Moskvu sem veittu Hvíta-Rússlandi tíu milljarða dala lán, sem er jafnvirði 1.381 milljarða íslenskra króna. Kjarnorkuverið var reist nærri borginni Astravets í Hrodno héraðinu. Yfirvöld í Litháen hafa mótmælt verinu harðlega en höfuðborg Litháen, Vilníus, er aðeins 50 kílómetrum frá Astravets.
„Þetta er sögulegt augnablik. Landið verður kjarnorkuveldi,“ sagði Lúkasjenkó í ávarpi sem sýnt var í ríkissjónvarpi landsins. „Kjarnorkuverið í Astravets markar nýtt skref í átt að framtíðinni, í átt að því að tryggja orkuöryggi landsins.“

Kjarnorkuverið hóf starfsemi sína fyrr í vikunni. Í kjölfarið ákvað Litháen að fresta frekari orkuviðskiptum við Hvíta-Rússland. Þá greindu yfirvöld í Lettlandi frá því að orkukaup frá Rússlandi hafi hafist á ný en þau höfðu verið fryst vegna áhyggja yfir því að rafmagn frá Rússlandi væri notað til þess að knýja kjarnorkuverið í Astravets.
Hvít-Rússar hafa einnig lýst yfir áhyggjum vegna versins en þeir urðu fyrir miklum og alvarlegum áhrifum eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl árið 1986.
Andrei Sannikov stjórnarandstöðuleiðtogi í Hvíta-Rússlandi sem var fangelsaður eftir að hann bauð sig fram til forseta gegn Lúkasjenkó árið 2010, skrifaði á Twitter í dag að kjarnorkuverið væri landfræðipólitískt vopn fyrir Lúkasjenkó og Kreml gegn Evrópusambandinu og „geislavirk hætta fyrir Hvíta-Rússland og Evrópu.“
Opnun kjarnorkuversins kemur ofan á mikil mótmæli og verkföll sem geisað hafa í landinu frá 9. ágúst, þegar Lúkasjenkó var endurkjörinn forseti. Stjórnarandstaðan vill meina að hann hafi beitt kosningasvindli sem ýmsir erlendir stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar kosninga hafa tekið undir.
Lúkasjenkó hefur setið á valdastóli frá árinu 1994 og er jafnan kallaður „síðasti einræðisherrann í Evrópu.“ Hann hefur ítrekað neitað ásökunum um kosningasvindl og harðneitar að segja af sér, líkt og stjórnarandstaðan og mótmælendur hafa kallað eftir.