Logi Már Einarsson var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar á rafrænum landsfundi flokksins í kvöld. Hann var einn í framboði til formanns og hlaut 96,45 % atkvæða.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni er kjörið sagt endurspegla „ánægju og traust flokksfélaga til hans og hans starfa í þágu flokksins.“
Logi sagði í ræðu sinni eftir endurkjörið að hann væri djúpt snortinn og fullur þakklætis fyrir traustið sem flokksfélagarnir hefðu sýnt honum í dag. Hann lofaði því að leiða flokkinn inn í mikilvægar kosningar eftir tæpt ár.
Baráttan um varaformannssæti flokksins er þrungin talsvert meiri spennu en formannskjörið. Tvær eru í framboði, þær Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og Helga Vala Helgadóttir þingmaður. Heiða hefur gegnt stöðu varaformanns síðustu ár. Úrslit í varaformannskjörinu ættu að liggja fyrir á ellefta tímanum í kvöld.
Heimir Már Pétursson fréttamaður ræddi við Heiðu Björgu og Helgu Völu í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.