Innlent

Gul við­vörun á Norður­landi eystra og vonsku­veður á leiðinni fyrir austan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Veðurstofan gerir ráð fyrir að á Austfjörðum geti samgöngur farið úr skorðum í nótt og á morgun. 
Veðurstofan gerir ráð fyrir að á Austfjörðum geti samgöngur farið úr skorðum í nótt og á morgun.  Vísir/Hanna

Gul viðvörun tók gildi klukkan sjö í morgun á Norðurlandi eystra og önnur slík fer í gildi klukkan ellefu á miðhálendinu. Á Norðurlandi er spáð vestan hvassviðri eða stormi þar sem vindur verður 15 til 23 metrar á sekúndu með éljum og hvössum vindstrengjum við fjöll. Þar geta hviður farið í þrjátíu metra á sekúndu. Þá má búast við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á fjallvegum á svæðinu.

Á miðhálendinu er síðan spáð vestan og norðvestan 15 til 23 metrum á sekúndu en þar verður hvassara við fjöll og vinhviður gætu farið í allt að fjörutíu metra á sekúndu. Á Norðurlandi eystra verður viðvörunin í gildi fram til klukkan tíu í kvöld en á miðhálendinu rennur hún út klukkan sex síðdegis miðað við spár.

Þá tekur gul viðvörun gildi á Austfjörðum í nótt, eða klukkan tvö en þar er spáð norðvestan stormi eða roki, 18 til 28 metrum á sekúndu. Þar er einnig búist við hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll sem gætu farið allt í 45 metra á sekúndu. 

Líklegt er að samgöngutruflanir verði á svæðinu og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi en hún á ekki að renna út fyrr en klukkan tíu annað kvöld. „Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×