Einn er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa skotið prest í frönsku borginni Lyon í dag. Presturinn hlaut lífshættulega áverka en árásarmaðurinn skaut hann tvívegis í kviðinn. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Árásin átti sér stað klukkan fjögur í dag að staðartíma. Árásarmaðurinn flúði vettvang og lokaði lögregla svæðinu í leit sinni að manninum. Þá var almenningur hvattur til þess að halda sig fjarri.
Einn var handtekinn í kvöld, grunaður um verknaðinn. Er hann sagður líkjast þeim manni sem vitni lýstu við lögreglu.
Lögregla rannsakar nú árásina sem morðtilraun en árásarmaðurinn notaðist við afsagaða haglabyssu.