Maður vopnaður hnífi var skotinn til bana af lögreglu í frönsku borginni Avignon um klukkan 11:15 í morgun að staðartíma eftir að sá hafði reynt að stinga lögreglumenn á götu úti.
Europa 1 greinir frá þessu, en lögregla í Avignon staðfestir að maður hafi verið skotinn og hann drepinn.
Árás mannsins var gerð um tveimur tímum eftir árásina í Notre Dame í Nice þar sem þrír voru drepnir af árásarmanni í hnífaárás. Segir Reuters frá því að þar hafi meðal annars kona verið afhöfðuð.
AFP segir sömuleiðis frá því að maður hafi ráðist á öryggisvörð franskrar ræðismannsskrifstofu í Jeddah í Sádi-Arabíu í morgun. Árásarmaðurinn þar ku vera sádí-arabískur ríkisborgari og nú í haldi lögreglu. Öryggisvörðurinn er ekki lífshættulega særður, en hann var fluttur á sjúkrahús, að því er fram kemur í orðsendingu frá franska sendiráðinu í Sádi-Arabíu til AFP.
Árásir dagsins koma tæpum tveimur vikum frá því að fréttir bárust af því að átján ára piltur hafi afhöfðað kennarann Samuel Paty í úthverfi Parísar, að því er virðist vegna þess að kennarinn hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni.