Forsvarsmenn líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar hafa ákveðið að opna ekki fyrir hóptíma í stöð sinni á morgun eins og til stóð. Fullt er í flesta hóptíma í World Class í dag samkvæmt skráningu á vefsíðu stöðvarinnar.
Að neðan má sjá myndband úr World Class í Laugardal í hádeginu í dag.
Reglugerð heilbrigðisráðherra heimilar hóptíma í líkamsræktarstöðvum í trássi við tilmæli sóttvarnalæknis sem vildi hafa stöðvarnar lokaðar næstu tvær til þrjár vikurnar.
Ný reglugerð tók gildi í dag og er óhætt að segja að reglugerðin sé sú umdeildasta hingað til. Íþróttastarf barna á höfuðborgarsvæðinu liggur niðri en líkamsræktarstöðvum er frjálst að hafa opið í hóptíma að uppfylltum sóttvarnaskilyrðum.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist ekki hafa látið undan þrýstingi frá líkamsræktarstöðvunum með ákvörðun sinni.
Ágústa Johnson, eigandi Hreyfingar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að stöðin myndi opna fyrir hóptíma á miðvikudag. Hún kallaði eftir skýrari reglum.
Fréttina og viðtalið við Ágústu má sjá í spilaranum að neðan.
Annað hljóð er komið í Ágústu í dag. Á heimasíðu Hreyfingar segir að nú að eftir að hafa skoðað málið vandlega hafi verið ákveðið að nýta sér ekki glufu í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins til að opna fyrir hóptíma með miklum takmörkunum, eins og fram kemur á heimasíðu Hreyfingar.
„Við lítum svo á að samfélagsleg ábyrgð og samstaða sé mikilvæg og munum því fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum. Enn eru of mörg smit í samfélaginu og ljóst að staðan er viðkvæm,“ segir í tilkynningunni.
„Við munum bíða eftir því að fá fullt leyfi til að opna starfsemina á ný, þrátt fyrir að sóttvarnir séu til fyrirmyndar hjá okkur og engin hópsmit hafi komið upp í Hreyfingu.“
Líkamsræktarstöðvarnar World Class og Sporthúsið tilkynntu í gær að starfsemi hefðist á ný í dag, innan þess ramma sem kveðið væri á um í reglugerð heilbrigðisráðherra um íþróttastarf. Þannig má halda úti hóptímum með fjarlægðartakmörkunum þar sem iðkendur nota ekki sömu tól og tæki.
Fullt er í vel flesta hóptíma hjá World Class í dag. Nítján geta skráð sig í flesta tíma hjá kennara enda tuttugu manna samkomubann í gildi.