Björgunarskipið Gísli Jóns á Ísafirði er komið að skipinu sem varð vélarvana innarlega í Ísafjarðardjúpi í morgun.
Björgunarsveit var kölluð út um klukkan hálf ellefu en í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sagði að skipið, sem var á veiðum í Ísafirði, hafi orðið vélarvana og tekið það að reka hægt að landi með þrjá menn um borð.
Áhöfninni tókst að hægja töluvert á rekinu með því að kasta út akkeri og rétt fyrir hádegi var Gísli Jóns síðan kominn að bátnum og er nú með hann í togi, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Búist er við því að báturinn verði dreginn til hafnar í Ísafjarðarbæ.

