Öllum sundstöðum og íþróttamiðstöðum á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu verður lokað á morgun. Þetta er gert til þess að gera starfsmönnum kleift að endurskipuleggja starfsemi með tilliti til nýrra krafna um sóttvarnir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Samkomubann tekur gildi um allt land nú á miðnætti og verður í gildi í fjórar vikur. Á meðan það varir þarf að tryggja með einum eða öðrum hætti að aldrei séu fleiri en hundrað manns inn í sama rými. Þetta á meðal annars við um sundstaði og íþróttamiðstöðvar.
Þess fyrir utan er gert ráð fyrir því að tveggja metra fjarlægð sé alla jafna á milli einstaklinga.
Erfitt að tryggja fjarlægð
„Sundlaugar eiga á flestum tímum dagsins að geta uppfyllt fyrra skilyrðið en tveggja metra fjarlægð er erfitt að uppfylla í sundlaugum og í íþróttahúsum. Það er ljóst að samkvæmt þeim tilmælum sem borist hafa, mun íþróttastarf og rekstur íþróttamannvirkja riðlast á næstunni,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.
Nú þurfi að endurskipuleggja verkfela með tilliti til nýrra krafna ásamt því að tryggja öryggi gesta og starfsmanna.
„Allir sundstaðir og íþróttamiðstöðvar verða því lokaðar mánudaginn 16. mars og dagurinn nýttur til ákvarðanatöku um framhaldið í samstarfi við viðeigandi aðila.“
Íþrótta- og sundkennsla mun riðlast
Samkomubannið mun sömuleiðis ná til íþrótta- og sundkennslu á vegum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þar verða ekki hefðbundnir íþrótta- og sundtímar á meðan bannið varir þar sem viðkomandi húsnæði verður lokað fyrir kennslu.
Þess í stað munu íþrótta- og sundkennarar vinna með námshópnum í heimastofu eða úti á skólalóð.