Borussia Dortmund og Bayern Munchen unnu góða útisigra í þýsku úrvalsdeildinni í dag.
Dortmund fór í heimsókn til Hoffenheim þar sem niðurstaðan í leiknum var 1-0 sigur Dortmund. Marco Reus gerði sigurmarkið á 76. mínútu eftir stoðsendingu frá Erling Haaland.
Bayern mætti nýliðunum í Arminia Bielefeld og voru það Thomas Muller og Robert Lewandowski sem sáu um markaskorun Bayern í 4-1 sigri. Muller kom meisturunum yfir strax á 8. mínútu áður en Lewandowski bætti við tveimur mörkum fyrir Bayern og staðan 3-0 í hálfleik.
Muller var svo aftur á ferðinni á 51. mínútu þegar hann skoraði annað mark sitt og fjórða mark Bæjara, í þetta sinn eftir stoðsendingu frá Lewandowski. Ritsu Doan minnkaði muninn fyrir nýliðana á 58. mínútu og meira var ekki skorað. Corentin Tolisso í liði Bayern fékk að líta beint rautt spjald á 76. mínútu en það kom ekki að sök, lokatölur 4-1 sigur Bayern Munchen.
Staðan í deildinni er þannig að Bayern og Dortmund eru jöfn að stigum með níu stig í 2. - 3. sæti eftir fjórar umferðir en Bayern er með töluvert betri markatölu.