Handbolti

Viggó næstmarkahæstur í Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson í leik gegn Rhein-Neckar Löwen þar sem hann skoraði fimm mörk.
Viggó Kristjánsson í leik gegn Rhein-Neckar Löwen þar sem hann skoraði fimm mörk. getty/Marco Wolf

Viggó Kristjánsson hefur heldur betur farið vel af stað með nýja liðinu sínu, Stuttgart, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Eftir þrjár umferðir er Viggó næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 23 mörk, eða 7,7 mörk að meðaltali í leik.

Sænski hornamaðurinn Niclas Ekberg hjá Kiel er markahæstur í þýsku deildinni með 27 mörk og hefur skorað fjórum mörkum meira en Viggó. Lasse Andersson, leikmaður Füchse Berlin, er í 3. sæti markalistans með 22 stig og Bjarki Már Elísson hjá Lemgo er í því fjórða með 21 mark ásamt Christoffer Rambo, leikmanni Minden. Bjarki varð markakóngur þýsku deildarinnar á síðasta tímabili.

Viggó skoraði fimm mörk gegn Rhein-Neckar Löwen í 1. umferð deildarinnar, átta mörk gegn TuSEM Essen í 2. umferðinni og tíu mörk gegn Balingen-Weilstetten í þeirri þriðju.

Seltirningurinn hefur skorað sex mörk af vítalínunni og er með frábæra skotnýtingu, eða 69,7 prósent.

Eftir eitt ár í Danmörku og tvö í Austurríki gekk Viggó í raðir Leipzig fyrir síðasta tímabil. Hann stoppaði stutt við þar og kláraði síðasta tímabil með Wetzlar. Hann gekk svo í raðir Stuttgart í sumar. Stuttgart hefur farið vel af stað í vetur og er í 9. sæti þýsku deildarinnar með fjögur stig.

Viggó lék með íslenska landsliðinu á EM í byrjun þessa árs og er greinilega staðráðinn í að vera áfram í íslenska hópnum sem fer á HM í Egyptalandi í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×