Þriðji íbúi dvalarheimilisins Hrafnistu Ísafoldar í Garðabæ greindist með kórónuveiruna í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá neyðarstjórn Hrafnistu. Starfsmaður Hrafnistu við Sléttuveg í Fossvogi greindist einnig með veiruna í dag.
Smitið á Ísafold kom upp á deildinni Ásbyrgi. Í tilkynningu segir að búið sé að tryggja öryggi annarra íbúa eins og hægt er og að upplýsa aðstandendur þess sem smitaðist.
Ísafold er áfram lokuð og eru allir íbúar heimilisins í sóttkví á meðan unnið er að nánari greiningu. Hrafnista vinnur með rakningarteymi Almannavarna að því að stöðva frekari smitútbreiðslu.