Áfrýjunardómstóll í New York kvað upp úr um það í dag að endurskoðendum Donald Trump Bandaríkjaforseta beri að afhenda ríkissaksóknurum þar skattskýrslur hans. Líklegt er talið að deilan um skattskýrslur forsetans rati öðru sinni fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.
Trump hefur barist gegn því með kjafti og klóm að gera skattskýrslur og upplýsingar um fjármál sín opinber eða aðgengilegar Bandaríkjaþingi eða saksóknurum. Hæstiréttur hafnaði lagarökum hans í sumar um að sem forseti njóti hann ekki aðeins friðhelgi fyrir ákæru heldur einnig hvers kyns rannsókn. Forsetinn gæti þó höfðað mál til að stöðva afhendingu gagnanna með öðrum rökum.
Lögmenn forsetans fóru þá enn fyrir dómstóla til að koma í veg fyrir að endurskoðendur hans þurfi að verða við stefnu saksóknara í New York og afhenda skattskýrslur hans. Saksóknararnir rannsaka fjármál Trump, þar á meðal í tengslum við þagnargreiðslur til tveggja kvenna sem segjast hafa átt í kynferðislegu sambandi við hann.
Rök Trump nú voru þau að saksóknararnir krefðust gagnanna í slæmri trú og að aðgerðir þeirra gætu átt sér pólitískar rætur. Stefnan á hendur endurskoðenda forsetans væru „áreiti“ gegn honum.
Svæðisdómstóll hafnaði kröfu forsetans í ágúst og áfrýjunardómstóll 2. svæðis á Manhattan staðfesti niðurstöðuna í dag. Vísaði dómurinn málinu alfarið frá sem þýðir að Trump getur ekki höfðað annað mál með sömu lagarökum, að sögn AP-fréttastofunnar. Réttaráhrifum niðurstöðu svæðisdómstólsins var þó frestað til að gefa Trump færi á að áfrýja málinu áfram.
Vísbendingar um skattaundanskot og mögulegt misferli
Jafnvel þó að Trump áfrýjaði ekki niðurstöðunni væri hæpið að frekari upplýsingar um skattskýrslur hans yrðu opinberar fyrir kosningar í byrjun nóvember. Saksóknararnir krefjast þar að auki gagnanna til að leggja fyrir ákærukviðdóm en trúnaður ríkir yfir störfum þeirra.
Mikil leynd hefur ríkt yfir fjármálum Trump en vísbendingar hafa komið fram um að hann hafi skotið háum fjárhæðum undan skatti í gegnum tíðina. Þannig virðist Trump-fjölskyldan hafa komið fjármunum foreldra forsetans til hans og systkina hans með krókaleiðum til að komast hjá erfðafjárskatti á sínum tíma.
Þá greindi New York Times frá því í síðasta mánuði að skattskýrslur Trump sem blaðið komst yfir bendi til þess að hann hafi aðeins greitt 750 dollara, jafnvirði rúmra 100.000 íslenskra króna, í tekjuskatt til alríkisstjórnarinnar á ári sem forseti. Þá hafi hann ekki greitt neinn tekjuskatt í ellefu af þeim átján árum sem gögnin náðu yfir. Skýringin var mikið tap sem Trump gaf upp á rekstri fyrirtækja sinna sem gerði honum kleift að forðast skattgreiðslur.
Saksóknararnir í New York hafa verið fáorðir um rannsókn sína á fjármálum Trump. Ýmislegt bendir þó til þess að þeir kanni hvort að Trump og fyrirtæki hans hafi brotið lög með því að veita fjárfestum, bönkum og yfirvöldum misvísandi upplýsingar um stöðu sína.