Fellibylurinn Delta hefur náð landi í Mexíkó og þá sem annars stigs fellibylur með um 50 m/meðalvindhraða. Veðurfræðingar og embættismenn á svæðinu höfðu óttast fellibylinn verulega en Delta varð fjórða stigs fellibylur í gær áður en hann missti aftur kraft seinni partinn.
Carlos Jaquín, ríkisstjóri, hefur þó varað íbúa og ferðamenn við því að Delta sé kraftmikill og hættulegur fellibylur. Margir hafa verið fluttir af lágt liggjandi svæðum og þúsundir halda til í þar til gerðum skýlum. 160 slík voru opnuð í Cancun, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Spár segja til um að sjávarborð muni hækka töluvert, eða allt að fjóra metra, og að hætta sé á skyndiflóðum vegna rigningar á svæðinu.
Hurricane #Delta makes landfall along the coast of northeastern Mexico near Puerto Morelos around 5:30 AM CDT with estimated maximum winds of 110 mph. Latest information at: https://t.co/tW4KeGdBFb pic.twitter.com/cWKYybKCMi
— National Hurricane Center (@NHC_Atlantic) October 7, 2020
Búist er við því að Delta safni svo aftur miklum krafti yfir Mexíkóflóa og skelli svo á suðurströnd Bandaríkjanna á föstudaginn. Veðurfræðingar segja útlit fyrir að fellibylurinn verði töluvert stærri og kraftmeiri þá.
Miðað við núverandi stefnu gæti Delta náð landi allt frá Louisiana til Flórída.
Delta er 25. hitabeltislægðin sem hefur myndast yfir Atlantshafinu og fengið nafn þetta árið. Aldrei áður hafa svo margar lægðir fengið nafn á þessum tíma árs. Metið sem Delta sló var frá 2005, þegar 25. lægðin myndaðist þann 15. nóvember.