Sex mörk voru skoruð í leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild karla. Um var að ræða frestaða leiki úr 14. umferð.
Stjarnan og FH skildu jöfn, 1-1, á Samsung-vellinum í Garðabæ. Pétur Viðarsson kom FH-ingum yfir í upphafi seinni hálfleiks en Hilmar Árni Halldórsson jafnaði fyrir Stjörnumenn þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
FH er í 2. sæti deildarinnar með 33 stig en Stjarnan í því fjórða með 28 stig. Stjörnumenn eiga leik til góða á FH-inga.
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, skoraði eitt mark og lagði upp annað í 0-2 sigri Íslandsmeistaranna á Víkingi. Ægir Jarl Jónasson kom KR-ingum yfir strax á upphafsmínútu leiksins eftir sendingu frá Óskari. Hann skoraði svo seinna mark meistaranna á 71. mínútu.
KR er í 6. sæti deildarinnar með 27 stig en Víkingur, sem hefur ekki unnið í tólf leikjum í röð, er í 10. sætinu með sextán stig.
Þá gerðu Breiðablik og KA 1-1 jafntefli á Kópavogsvelli. Þetta var ellefta jafntefli KA-manna í sumar. Metið í efstu deild eru tólf jafntefli sem Blikar afrekuðu fyrir sex árum.
Sveinn Margeir Hauksson kom KA yfir á 18. mínútu eftir slæm mistök Antons Ara Einarssonar, markvarðar Breiðabliks. Viktor Karl Einarsson jafnaði fyrir Blika á 53. mínútu og þar við sat.
Breiðablik er með 28 stig í 3. sæti deildarinnar. KA er í 8. sætinu með 20 stig.
Mörkin úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild karla má sjá hér fyrir neðan.