Þrettán liggja nú inni á Landspítala vegna Covid-19, tveimur fleiri en þegar tölur voru birtar á Covid.is í morgun. Enn eru tveir á gjörgæslu og báðir í öndunarvél. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landspítala. Níu af nítján skurðstofum spítalans hefur verið lokað eða verður lokað á næstu dögum.
Alls eru 572 sjúklingar í eftirliti Covid-göngudeildar Landspítala. Þá eru 37 starfsmenn spítalans í einangrun með kórónuveiruna og 95 starfsmenn í sóttkví.
Landspítali er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins. Unnið er að ýmsum leiðum til að auðvelda breytingar á starfseminni vegna faraldursins, að því er segir í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd.
Þá verður fjórum af sjö skurðstofum við Hringbraut lokað á næstu dögum, sem og tveimur af þremur skurðstofum á kvennadeild. Alls eru því níu af nítján skurðstofum spítalans lokaðar en áfram er bráðaaðgerðum og aðkallandi aðgerðum sinnt.
Smitsjúkdómadeild A7 er nú einungis farsóttareining og unnið er að skipulagi á lungnadeild svo unnt verði að taka við Covid-19 sjúklingum þar.
Þá er brýnt fyrir starfsmönnum og gestum að bera ávallt andlitsgrímur sem Landspítali útvegar í öllum rýmum spítalans.
Þrjátíu og sex greindust með veiruna síðasta sólarhringinn, þar af voru tuttugu í sóttkví. Upplýsingafundur almannavarna vegna veirunnar hefst nú klukkan þrjú og verður sýndur í beinni útsendingu á Vísi.