Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City staðfesti í kvöld kaupin á miðverðinum Rúben Dias. Sá kemur frá portúgalska félaginu Benfica á litlar 65 milljónir punda. Argentíski miðvörðurinn Nicolás Otamendi fer í hina áttina á 14 milljónir svo segja má að City borgi „aðeins“ 51 milljón punda fyrir Dias.
What a signing! pic.twitter.com/XPqJFLi5YX
— Manchester City (@ManCity) September 29, 2020
Argentíski miðvörðurinn Nicolás Otamendi fer í hina áttina á 14 milljónir svo segja má að City borgi „aðeins“ 51 milljón punda fyrir Dias. Athygli vekur að báðir leikmenn eru með sama umboðsmann, ofurumboðsmanninn Jorge Mendes. Raunar sér GestiFute, umboðsstofa í eigu Mendes, um öll þeirra mál.
Dias er hins vegar dýrasti varnarmaður í sögu Manchester City og skrifar hann undir sex ára samning við félagið. Pep Guardiola - þjálfari Manchester City - hefur verið duglegur að versla varnarmenn síðan hann tók við stjórnartaumum félagsins árið 2016.
Alls hefur hann eytt yfir 400 milljónum punda í varnarmenn en það gerir rúmlega 71 milljarð íslenskra króna. Til að mynda eyddi félagið rúmum 40 milljónum punda í hollenska varnarmanninn Nathan Aké í sumar.
Hinn 23 ára gamli Dias kemur frá Portúgal og er uppalinn hjá Benfica. Hann lék 90 leiki fyrir aðallið Benfica og þá hefur hann leikið 19 leiki fyrir portúgalska A-landsliðið.