Inter Milan og Fiorentina buðu upp á frábæra skemmtun á Giuseppe Meazza leikvangnum í kvöld í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Christian Kouame kom gestunum yfir strax á 3.mínútu en Lautaro Martinez sá til þess að liðin færu með jafna stöðu í leikhléið, 1-1.
Í síðari hálfleik hófst fjörið fyrir alvöru. Sjálfsmark Federico Checcerini á 52.mínútu kom Inter í forystu en Gaeatano Castrovilli og Federico Chiesa komu gestunum aftur í forystu með tveimur mörkum með stuttu millibili eftir um klukkutíma leik.
Inter reyndi hvað þeir gátu að jafna metin og það bar loks árangur á 87.mínútu þegar Romelu Lukaku batt endahnútinn á góða sókn þar sem Alexis Sanchez og Achraf Hakimi gerðu vel.
Sanchez lagði svo upp sigurmark Danilo D´Ambrosio á lokamínútu venjulegs leiktíma. Lokatölur 4-3 fyrir Inter.