ÍBV gerði sér lítið fyrir og vann eins marks sigur, 23-22, á Val í þriðju umferð Olís-deildar kvenna í dag. Mikil dramatík var undir lok leiksins enda spennan ansi mikil.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en ansi lítið var skorað. Einungis fimm mörk litu dagsins ljós fyrstu tíu mínúturnar og var sóknarleikurinn hjá báðum liðum nokkuð bagalegur.
Sóknarleikurinn fór þó aðeins að hrökkva í gang er líða fór á leikinn en jafnræðið var áfram mikið. Flautumark Ásdísar Þóru Ágústsdóttur gerði það að verkum að Valur var einu marki yfir í hálfleik, 10-11.
Áfram hélt spennan í Vestmannaeyjum en þegar stundarfjórðungur var eftir stigu Eyjastúlkur aðeins á bensíngjöfina. Þær náðu 3-1 kafla og náðu þannig að byggja upp fjögurra marka forskot, 22-18.
Það bil náðu síðustu Íslandsmeistarar sem voru krýndir, Valsstúlkur, ekki að brúa og Eyjastúlkur unnu að endingu 23-22. Stór sigur fyrir Eyjastúlkur upp á framhaldið að gera sem eru á toppnum með fimm stig.
Sunna Jónsdóttir var mögnuð í liði ÍBV. Hún skoraði tíu mörk og Birna Berg Haraldsdóttir bætti við sex. Í liði Vals voru þær Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir markahæstar með fjögur mörk.