Ný samstjórn allra flokka verður við stjórn Akureyrarbæjar eftir samkomulag meiri- og minnihluta þar um sem greint var frá í hádeginu. Forseti bæjarstjórnar segir nýja kjarasamninga og kórónufaraldurinn hafa haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu bæjarins.
Ellefu bæjarfulltrúar sitja í bæjarstjórn Akureyrar. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018 mynduðu Framsóknarflokkur, Samfylking og L-list meirihluta í bæjarstjórn með tvo bæjarfulltrúa hver flokkur. En Sjálfstæðisflokkur með þrjá bæjarfulltrúa, Vinstri græn með einn og Miðflokkurinn með einn voru í minnihluta.

Fjárhagsstaða Akureyrarbæjar hefur verið erfið undanfarin misseri og hafa tekjur dregist saman og útgjöld aukist á þessu ári vegna kórónufaraldursins. Þannig var 1,3 milljarða halli á rekstri bæjarins á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Halla Björk Reynisdóttir oddviti L-listans og forseti bæjarstjórnar segir nýgerða kjarasamninga einnig hafa þyngt mjög rekstur bæjarins.
„Við erum svo heppin hér á Akureyri að það er áralöng hefð fyrir góðu samstarfi á milli meiri- og minnihluta. Núna hefur skapast sá jarðvegur og traust á milli aðila að við teljum, á þessum fordæmalausu tímum þar sem við erum að takast á við stór verkefni og taka erfiðar ákvarðanir sem hafa áhrif til framtíðar, að það sé mikilvægt að um það náist breið samstaða,“ segir Halla Björk.
Fráfarandi meirihluti hafi treyst sér í verkefnin en mikilvægt væri nú að ná breiðri samstöðu um málin. Flokkar sem áður voru í minnihluta muni taka að sér formennsku á ýmsum stöðum.

„Minnihlutinn mun taka við formennsku í skipulagsráði, frístundaráði, stjórn Menningarfélags Akureyrar og vist- og fallorku,“ segir Halla Björk. Bærinn hafi þurft að grípa til aðgerða til að koma til móts við vinnustaði í bænum og samfélagið í heild.
„Og það hefur kallað á fjárútlát og breytta starfshætti. Núna erum við að breyta okkar starfsháttum í bæjarstjórn ásamt starfsfólki bæjarins.“
Tekjur hafa væntanlega dregist saman á móti auknum útgjööldum eða hvað?
„Já, tekjur hafa dregist verulega saman. Og við erum að takast á við nýja kjarasamninga sem eru okkur nokkuð þungir,“ segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar á Akureyri.