Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu skoraði níu mörk gegn Lettlandi á Laugardalsvelli í gær. Fimm markanna komu frá frænkum í liðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik í gær og með henni í byrjunarliðinu var öllu reynslumeiri náfrænka hennar, Dagný Brynjarsdóttir.
Föðurafi Sveindísar, Sveinn Jónsson, og langamma Dagnýjar í móðurætt, Jónína Þórunn Jónsdóttir, tilheyrðu stórum systkinahópi frá Vorsabæ í Austur-Landeyjum.
Sveindís skoraði tvö mörk í leiknum í gær, fleiri en nokkur íslensk landsliðskona hefur gert í sínum fyrsta A-landsleik, og Dagný skoraði sína fyrstu þrennu í meistaraflokki. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.
Dagný er í þriðja sæti yfir markahæstu landsliðskonur Íslands frá upphafi með 29 mörk í 89 leikjum. Hún er átta mörkum á eftir Hólmfríði Magnúsdóttur en Margrét Lára Viðarsdóttir er langmarkahæst með 79 mörk. Sveindís mun eflaust þokast upp þennan lista með árunum en hún er aðeins 19 ára gömul og skoraði 13 mörk í 19 leikjum fyrir U19-landsliðið.
