Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur komist á þrjú Evrópumót í röð. Leiðin á fjórða mótið, í Englandi sumarið 2022, heldur áfram í kvöld þegar liðið mætir Lettlandi.
Leikur Ísland og Lettlands hefst kl. 18.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Ísland vann fyrstu þrjá leiki sína í undankeppninni, á heimavelli gegn Ungverjum (4-1) og Slóvökum (1-0), og á útivelli gegn Lettum (6-0). Svíþjóð vann einnig fyrstu þrjá leiki sína og er með fimm mörkum betri markatölu, á toppi F-riðilsins.
Leikirnir sem Ísland á eftir
17. september: ÍSLAND – Lettland
22. september: ÍSLAND – Svíþjóð
27. október: Svíþjóð – ÍSLAND
26. nóvember: Slóvakía – ÍSLAND
1. desember: Ungverjaland –ÍSLAND
Aðeins það lið sem endar efst í riðlinum er öruggt um farseðilinn til Englands, þar sem meðal annars verður leikið á leikvöngum á borð við Wembley og Old Trafford. Ísland þarf að slá við Svíþjóð, bronsliði HM í fyrra, til að það takist en það yrði án vafa eitt mesta afrek í sögu landsliðsins.
Næstefsta sæti tryggir umspil eða farseðil til Englands
Ísland á góða möguleika á að ná 2. sæti og þar með væri öruggt að liðið færi í umspil eða beint á EM. Leikið er í níu undanriðlum og komast þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti á EM, en sex lið fara í umspil um þrjú síðustu lausu sætin. Áætlað er að umspilið fari fram 5.-13. apríl á næsta ári.
Ísland er sem stendur með fjórða besta árangurinn af liðum í 2. sæti, þremur mörkum verri markatölu en Danmörk í B-riðli, en mikið vatn á eftir að renna til sjávar. Það eina sem íslenska liðið getur gert er að sækja til sigurs í kvöld, og hafa í huga að hvert einasta mark getur á endanum hjálpað til við að koma liðinu á EM.
Ísland tvisvar verið meðal átta bestu í Evrópu
Lokakeppni EM hefði átt að fara fram næsta sumar en var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Þá verða fimm ár liðin síðan að Ísland lék á EM í Hollandi 2017, þar sem liðið varð að sætta sig við að falla úr leik án stiga.
Besti árangur Íslands á EM náðist árið 2013 þegar liðið fór í 8-liða úrslit á EM í Svíþjóð, en steinlá þar gegn heimakonum – liðinu sem Ísland mætir í toppslag næsta þriðjudag.
Í fyrst lokakeppni EM sem Ísland tók þátt í, árið 2009, féll liðið úr leik í riðlakeppninni án stiga. Þá, líkt og 2013, voru aðeins 12 lið í keppninni en þeim var fjölgað í 16 fyrir EM 2017.
Í undankeppni EM 1995 komst Ísland á lokastigið, þar sem 8 lið tóku þátt, en féll þar úr leik gegn Englandi, samanlagt 4-2. Aðeins fjögur lið tóku svo þátt í lokakeppninni.