Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt yfirmann Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) eftir að sá sagði að bóluefni við Covid-19 yrði ekki komið í almenna notkun fyrr en um mitt næsta ár og að grímur gætu verið skilvirkari en bóluefni. Þetta sagði Robert Redfield, yfirmaður CDC, á fundi þingnefndar í gær.
Nánar tiltekið þá sagði Redfield að ef bóluefni verði tilbúið til notkunar í nóvember eða desember, yrði það í takmörkuðu upplagi. Þeir einu sem fengju það væru viðbragðsaðilar og þeir sem eru viðkvæmastir gagnvart nýju kórónuveirunni.
Redfield sagðist telja að almenn notkun gæti mögulega hafist næsta sumar.
Hann sagði einnig að grímur gætu mögulega hjálpað meira til en bóluefni við að draga úr útbreiðslu veirunnar og hvatti fólk til að nota þær.
Á blaðamannafundi í gær sagðist Trump viss um að Redfield hefði ruglast og að hann hefði gert mistök. Hann gagnrýndi Redfield einnig fyrir ummæli hans um grímur og sagði þær alls ekki skilvirkari en bóluefni.
Þá hét Trump því að bóluefni yrði tilbúið í næsta mánuði. Forsetinn hefur ítrekað haldið því fram að öruggt bóluefni myndi líta dagsins ljós fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Sérfræðingar segja það þó ekki líklegt.
Eftir ummæli Trump, tísti Redfield og sagðist bera miklar vonir til bóluefna og að þau myndu gera líf Bandaríkjamanna eðlileg á nýjan leik. Hann ítrekaði þó að í dag væru grímur, handaþvottur og félagsforðun besta vörnin gegn Covid.
The best defense we currently have against this virus are the important mitigation efforts of wearing a mask, washing your hands, social distancing and being careful about crowds. #COVID19
— Dr. Robert R. Redfield (@CDCDirector) September 16, 2020