Þýskir læknar segja að Alexei Navalní, rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn, sé á batavegi eftir að honum var byrlað taugaeitur í Rússlandi. Navalní sé laus úr öndunarvél og hann geti nú risið úr rekkju í skamman tíma í einu, að sögn AP-fréttastofunnar.
Navalní hefur dvalið á sjúkrahúsi í Berlín frá 22. ágúst. Þangað var honum flogið eftir að hann veiktist hastarlega í flug frá Síberíu til Moskvu. Aðstandendur hans héldu því strax fram að honum hefði verið byrlað eitur og kröfðust þess að fá að flytja hann til læknismeðferðar í Þýskalandi.
Þýsk yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að Navalní hefði verið byrlað nýtt afbrigði af sovéska taugaeitrinu novichok. Stjórnvöld í Kreml hafa þvertekið fyrir að nokkuð saknæmt hafi gerst og krafist þess að fá upplýsingar frá þýskum yfirvöldum og jafnvel að fá að senda rannsakendur til Berlínar.
Frönsk og sænsk stjórnvöld staðfestu í dag niðurstöður Þjóðverja um að eitrað hafi verið fyrir Navalní með novichok. Það er sama eitrað og var byrlað Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Skrípal-feðginin lifðu tilræðið af en ensk kona lét lífið þegar hún komst í snertingu við leifar eitursins sem rússneskir tilræðismenn skildu eftir sig.
Pútín segir óviðeigandi að saka hann um tilræðið
Enn er óljóst hvort að Navalní hljóti fullan bata eftir eitrunina. Greint var frá því í síðustu viku að hann væri vaknaður úr dái en læknar hafa varað við því að þó að Navalní virðist á batavegi gæti hann glímt við langtímaafleiðingar.
Reuters-fréttastofan segir að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi rætt við Emmanuel Macron, Frakklandsforseta, í síma í dag og sagt þar að það væri „óviðeigandi“ að saka rússnesk stjórnvöld um að hafa eitrað fyrir Navalní sem hefur verið einn fyrirferðamesti stjórnarandstæðingur Rússlands undanfarin ár.
Rússar hafa einnig borið af sér sakir af því að hafa eitrað fyrir Skrípal-feðginunum. Vestrænar leyniþjónustur telja að Pútín hafi skipað fyrir um að Skrípal, sem hann telur svikara, skyldi myrtur. Fjöldi blaðamanna, stjórnarandstæðinga og pólitískra andstæðinga Pútín hefur látið lífið við voveiflegar aðstæður í um tveggja áratuga stjórnartíð forsetans.