Erlent

Búa sig undir annan fellibyl

Samúel Karl Ólason skrifar
Sally er nú yfir Mexíkóflóa og safnar þar krafti.
Sally er nú yfir Mexíkóflóa og safnar þar krafti. AP/NOAA

Bandaríkjamenn sem búa við Mexíkóflóa undirbúa sig nú fyrir enn einn fellibylinn sem talið er að muni ná landi á morgun. Sally er nú skilgreind sem óveður en hún er á Mexíkóflóa að safna krafti fyrir ferðina inn á land og er áætlað að Sally nái fellibylsstyrk í kvöld.

Óttast er að Sally geti valdið miklum sakaða allt frá Flórída til Louisiana en fellibylurinn Lára fór yfir svæðið í síðasta mánuði.

Veðurfræðingar búast við sterkum vindhviðum og að sjór muni ná langt inn á land. Einnig er talið mögulegt að Sally geti valdið skyndiflóðum á komandi dögum.

John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, hefur biðlað til íbúa um að fylgjast vel með spám og fylgja fyrirmælum þegar þau berast.

„Ég veit að fyrri marga virtist þetta óveður koma úr heiðskýru lofti,“ hefur AP fréttaveitan eftir Edwards. „Við þörfnumst þess að allir fylgist vel með óveðrinu. Tökum þessu alvarlega.“

Í Mississippi hafa embættismenn varað við því að útlit er fyrir að Sally nái landi á háflóði og er því búist við miklum sjávarflóðum. Tate Reeves, ríkisstjóri Mississippi, hefur gert íbúum við strandir ríkisins og lágt liggjandi svæðum að þau þurfi að yfirgefa heimili sín fyrir morgundaginn.

Veðurfræðingar segja mögulegt að allt að fimmtungur heimila við ströndina sé á svæðum sem flætt gæti á.

Í tísti frá Veðurstofu Bandaríkjanna er tekið undir þessar áhyggjur og er flóðunum lýst sem „einstaklega hættulegum“ og mögulega mannskæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×