Fjölmiðlamaðurinn Hjörvar Hafliðason segir nánast frágengið að markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson verði keyptur til enska stórliðsins Arsenal.
Hjörvar segir fylgjendum Dr. Football hlaðvarpsins á Facebook frá því að Rúnar Alex sé „genginn til liðs við“ Arsenal en að hann eigi þó eftir að klára læknisskoðun. Kaupverðið sé um 5-10% af því sem Aston Villa greiði fyrir Emiliano Martínez. Það rímar við það sem fram kemur í enskum miðlum um að kaupverðið á Rúnari sé 1,5 milljón punda, eða rúmar 260 milljónir króna.
Inaki Cana, markmannsþjálfari Arsenal, þekkir vel til Rúnars Alex en hann vann með honum hjá danska félaginu Nordsjælland áður en KR-ingurinn var seldur til Dijon 2018.
Samkvæmt The Independent er Arsenal áfram einnig með augun á David Raya, markverði Brentford, sem verðlagður er á 10 milljónir punda. Því gæti verið að Rúnar Alex, sem er 25 ára og hefur byrjað leiktíðina sem varamarkvörður Dijon í Frakklandi, verði keyptur inn sem þriðji markvörður Arsenal.
Þjóðverjinn Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal og varði mark liðsins í 3-0 sigrinum gegn Fulham í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.