Kári Kristján Kristjánsson er hraustur maður sem lætur finna vel fyrir sig á línunni. Það fór því ekki vel í marga ÍR-inga að sjá hann hrynja í gólfið í leik ÍR og ÍBV. Seinni bylgjan fór betur yfir þetta atvik.
„Einn af þeim sem fékk að heyra það úr stúkunni í Breiðholtinu var hinn svínsæli Kári Kristján, KKK. Smári Jökull, okkar maður, heyrði aðeins í Kára,“ byrjaði Henry Birgir Gunnarsson umræðuna um leikaraskap Kára Kristjáns Kristjánssonar í leik ÍR og ÍBV í Olís deild karla.
„Það var hasar í mönnum hérna í seinni hálfleik og ÍR-ingarnir voru að kalla eftir leikaraskap á þig, Er eitthvað til í því?“ spurði Smári Jökull Jónsson, Kára eftir leik.
„Þetta er á teipi Smári minn. Þú getur kíkt á þetta,“ svaraði Kári Kristján Kristjánsson og glotti.
Henry Birgir sýndi atvikið og spurði síðan sérfræðinga sína um það hvort að þetta væri leikaraskapur eða ekki.
„Þessi maður er búinn að vera lyfta heilu og hálfu klettunum í sumar,“ skaut Henry Birgir inn í.
„Til þess að bjarga Kára út úr þessu þá er þetta ekki leikaraskapur heldur eru þetta ýkjur,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar en við það sprungu allir úr hlátri.
„Jói, við vitum það allir að þetta var ekkert annað en leikaraskapur. Þetta er bara hálfvandræðalegt en bráðfyndið engu að síður,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.
Það má finna umfjöllunina um meintan leikaraskap Kára Kristjáns hér fyrir neðan.