Til skoðunar er að heimila einfalda ferðamennsku með sóttvarnaráðstöfunum en vaxandi vonleysis er farið að gæta hjá ferðaþjónustunni. Forsætis- og heilbrigðisráðherra eru sammála um að hófstilltar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum hafi borið árangur.
Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær en einn á landamærunum sem bíður mótefnamælingar. Fjöldi fólks í sóttkví og einangrun er svipaður og undanfarna daga og enn er einn á sjúkrahúsi vegna kórónuveirusmits.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra framlengdi í dag þær aðgerðir sem gilt hafa á landamærunum frá 19. ágúst um þrjár vikur. Þá stytti hún þann tíma sem fólk sem smitast inanlands þarf að vera í sóttkví úr tveimur vikum í eina að undangenginni sýnatöku í lok sóttkvíar. Hún segir aðgerðirnar á landamærunum nauðsnlegar og þær hafi virkað.
„Þær sýna það. Við erum að ná tökum á faraldrinum hér innanlands. Ég held að öllum sem búa hér innanlands sé það ljúft og ánægjulegt að við skulum vera farin að sjá ástand sem er nær því sem við sáum þegar lífið gekk sinn vanagang hér innanlands. Þannig að það er auðvitað árangur sem við erum að ná vegna þess að við gripum til þessara ráðstafana á landamærum,“ segir Svandís.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðirnar hér hófstiltar miðað við mörg önnur nágrannaríki en nauðsynlegar vegna þess að faraldurinn sé í vexti víða um heim. Frumskylda stjórnvalda sé að verja líf og heilsu fólks. En með árangri við landamærin verði vonandi hægt að slaka á hömlum innanlands.
Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki bara bein áhrif á þá sem eru að ferðast eða myndu vilja ferðast. Hann hefur haft áhrif á efnahagslíf alls heimsins, meðal annars hér á Íslandi. Þannig hefur Seðlabankinn ákveðið að selja allt að 240 milljónir evra fram til áramóta til að hafa áhrif á gjaldeyrismarkaðinn en krónan hefur látið mjög undan síga frá því faraldurinn hófst.
Forsætisráðherra segir hagræna greiningu á áhrifunum faraldursins liggja fyrir í næstu viku.
„Og síðan erum við auðvitað í samtali við ferðaþjónustuna um að skoða hvort einhverjar lausnir eru tiltækar. Sem við getum þá nýtt til að einfalda einhverja ferðaþjónustu með skýrum sóttvarnaráðstöfunum þó,“ segir Katrín Jakobsdóttir.