Belgar eru 2-1 yfir í hálfleik á móti Íslandi eftir að hafa svarað marki Íslands með tveimur mörkum á aðeins fjórum mínútum. Fyrra mark Belga er umdeilt.
Íslenska landsliðið var yfir í þrjár mínútur á móti besta liði heims en Belgar voru fljótur að snúa leiknum sér í vil.
Hólmbert Aron Friðjónsson kom Íslandi í 1-0 á tíundu mínútu en Axel Witsel jafnaði metin á þrettándu mínútu.
Ögmundur Kristinsson varði þá aukaspyrnu Kevin De Bruyne stórkostlega en Axel Witsel fylgdi á eftir og nær skoti á markið.
Jón Guðni Fjóluson nær að skalla boltann af marklínunni en aðstoðardómari leiksins segir að boltinn hafi verið farið inn fyrir marklínuna og staðan því orðin 1-1.
Það er því spyrning um hvort að boltinn hafi farið inn fyrir marklínuna. Það er ekki hægt að sjá það hundrað prósent á sjónvarpsmyndum af markinu en það er ekki marklínutækni í þessum leik.
Michy Batshuayi kom síðan Belgum í 2-1 fjórum mínútum síðar þegar hann fylgdi á eftir skoti Axel Witsel.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin tvö sem Belgar skoruðu í fyrri hálfleiknum.